Frétt ársins!

ágúst 22, 2008 at 8:24 e.h. (í stuði með guði, Bestiary)

Mér finnst þetta merkilegra en sigurinn í Kína – það er svo margt í þessari sögu. Hundamamman La China bar nýfæddan og yfirgefinn fyrirbura 50 metra leið á kraftaverkakenndan hátt til þess að geta hugsað um hann um leið og hvolpana sem hún átti fyrir (þau búa í fátæklegum kassa, í ultimate fátækt). Hrædd móðirin, 14 ára gömul, gaf sig fram eftir að barnið fannst hjá La Chinu blessaðri. Megi allar góðar vættir vaka yfir henni og hennar hvolpum. Og auðvitað barninu og mömmunni líka.

Þvílík frétt!

Aðeins dýr geta reddað deginum…

Varanleg vefslóð Ein athugasemd

Virkjum drauma og ímyndunarafl.

júlí 20, 2008 at 6:59 e.h. (Miðaldaspeki, persónulegt)

Ég var að fá enn eina sendinguna frá amazon um daginn (já ég braut öll heitin mín um að kaupa alls ekki fleiri bækur þaðan í bili) og þarsem ég er í mjög velheppnuðu lestrarátaki núna þá byrjaði ég á einni bókinni strax. Sú sem varð fyrir valinu heitir Man and his symbols eftir Carl Gustav Jung.

Ég er yfirlýstur Freudisti en hef samt verið Jungaðdáandi mun lengur. Ég lærði um þá kumpána í menntaskóla og eftir það afneitaði ég Freud um árabil, en Jung heillaði mig samfellt, enda komu kenningar hans um sálfræði, tákn og goðsagnir við sögu í mörgum bókum og fræðum sem ég kynnti mér á árunum sem fylgdu í kjölfarið. Jung var semsagt í meira uppáhaldi á meðan ég hafði bara niðursoðna grunnvitneskju um verk þeirra til að byggja á.

Ég hreifst amk mun meira af Jung en Freud, þangað til ég raunverulega kynntist þeim síðarnefnda í háskólanum. Ég á núna fullt af bókum eftir hann en þetta er hinsvegar fyrsta bókin eftir Jung sem ég kem höndum á, síðan í bókafíaskóinu mikla ´96 (löng saga – löggan blandaðist í málið en ég kom hrein einsog mjöll útúr því öllu saman, sem betur fer). Vandamálið við Jung var að ég komst aldrei inní hans fræði, hann setti þau upp á svo flókinn hátt og var eitthvað svo erfiðlega fræðilegur að ég gat ekki eytt mínum dýrmæta og umsetna tíma í hann þá. Þótt ég hafi alltaf viðhaldið aðdáuninni sem ég fann fyrir á kenningum hans þá var hann algjörlega í skugga Freuds síðan ´04. Þartil nú. Því hann er búinn að krafsa sig frammúr skugganum og er kominn vel uppað fótskör meistarans 🙂

Það sem gerir þessa bók svo frásagnarverðuga er að þetta var seinasta bókin hans og hún var skrifuð með það að markmiði að vera sem aðgengilegust fyrir hans æstustu almúgaaðdáendur sem höfðu hingað til ekki haft nógu stóra heila fyrir útskýringarnar (t.d ég). Hann neitaði lengi vel að láta hafa sig útí þetta en sem betur fer gerði hann það, segi ég nú bara. Þessi bók er ógeðslega skemmtileg og eins frábærlega heillandi og maður hefur alltaf ímyndað sér að Jung væri í raun. Hann þurfti bara aðhald.

Fyrsti kaflinn er um drauma og mikilvægi þeirra. Jung er næstum alltaf viðloðandi draumafræði, semog Freud, og að mínu mati kom það sem sagt var kenningum Jungs í því samhengi oftast betur út. Hann var ekki eins fastur á því að allt snerist um kynlíf (og ég skil það ósköp vel). Þótt ég sé ekki búin að klára bókina eða neitt (bara nýbyrjuð raunar) þá sannar hún fyrir mér að Jung hafi verið á réttri leið hvað drauma varðar. Allavega hvað mínar eigin draumfarir snertir þá eru kenningar Jungs mjög skemmtilegar og uppörvandi.

Það er ekkert smá skemmtilegt að lesa þessa bók, sérstaklega ef maður situr úti á stétt með kettina í eltingaleik, sólina skínandi og fuglana í sjálfsmorðshugleiðingum.

Ég mun bráðum skrifa upp eitt og annað úr bókinni, bara eitthvað smálegt…
(þetta er óþolandi ávani en mér leiðist stundum að vera alltaf pælandi í einhverju svona alein og þá er gott að geta látið aðra lesa með sér… með fyrirfram þökk…)

Hvað haldið þið að litlu skýin tvö á miðri mynd eigi að vera?

Varanleg vefslóð 4 athugasemdir

Söguskoðun

júlí 16, 2008 at 4:24 e.h. (Diabolique, power of the overlords)

Ég fann þessa mynd hjá snillingnum Celtic Rebel:

Hvað finnst ykkur? Verið óhrædd við að tjá tilfinningar, sama hversu andstyggilegar þær kunna að vera, það er ábyggilega réttmæt skoðun sko…

Varanleg vefslóð Ein athugasemd

Getraun: Hversu gömul er baðstrandagellan?

júlí 16, 2008 at 12:44 e.h. (Uncategorized)

Nú ætla ég að biðja alla um að reyna að svara, það eru stórkostleg verðlaun í boði fyrir þann sem giskar á réttan aldur konunnar. Plís ekki svindla og þið verðið að vera nákvæm. Þið þurfið ekkert að vita hver þetta er…

Eftir nokkra mánuði ætla ég að vera orðin jafn flott og þessi (á bara eftir að finna leið til að koma því í kring)

Varanleg vefslóð 12 athugasemdir

Óbærilega sætt

júlí 14, 2008 at 5:23 e.h. (Bestiary)

Þrír litlir ljónsungar í Þýskalandi. Þeir verða að passa sig á Knúti…

Varanleg vefslóð Ein athugasemd

Viðburðaríkt líf uppúr þurru.

júlí 13, 2008 at 5:56 e.h. (í stuði með guði, persónulegt)

Úff ég er komin heim aftur. Það er ekki liðinn sólarhringur en ég er þegar búin að lenda í alveg geggjuðum ekta norðfirskum ævintýrum!!! Þetta verður eiginlega bara svona frásögn af þeim (ógeðslega löng) og svo því hvernig mér líður eftir hið stórskemmtilega frí (það var svo gaman, ég framlengdi næstum ferðina útaf því). Ég verð að segja að ég hefði alls ekki viljað missa af gærkvöldinu en það sem var að gerast þá dró mig hreinlega aftur hingað heim. Svo verð ég að monta mig smá af því hvað ég er góð í að gera það sem ég segist ætla að gera, núna er nefninlega þvílíkt gott veður og ég hafði lofað öllu illu um að stela hitanum og sólinni þegar ég færi aftur austur. Það tókst. Í dag voru allir að ræða um „heitasta dag sumarsins“ eða eitthvað álíka… Kassandra og Karítas eru úti að leika sér, músast í illgresinu og kíkja oní fjöru. Óárennileg ásýnd litlu yndislegu Karímúsu vekur ugg og ótta en maður þarf að þekkja hana til að vita hvað hún er sérlega góð.

Þegar ég kom heim í gær þurfti Kassandra að segja mér svo margt en Karítas vildi bara að við færum niður að leika okkur. Ég bjó mér til pizzu og þegar ég var að taka hana úr ofninum varð mér óvart litið útum einn eldhúsgluggann og sá þá eitthvað svart vera að skjótast uppúr vatninu við og við. Mér fannst þetta ekki vera önd þannig að ég náði í kíki inní stofu og fór að skoða. Þetta hélt áfram að poppa upp en akkúrat þegar ég náði besta sjónarhorninu sá ég bara fisk. Hann var greinilega í gini rándýrs og þegar hausinn á því kom upp í þriðja sinn sá ég að þetta var selur. Þá synti hann í aðra átt alveg uppvið fjöruborðið. En ég sá hann éta og veiða, spáið í því! Ég fór meiraðsegja út og horfði á hann en gat ekki verið lengi útaf matnum mínum.

Kisurnar eru svo ótrúlega skemmtilegar og þeim finnst svo gaman að ég sé komin heim aftur. Það er best af öllu.

En núna loksins kemur aðalfrásögnin

Ég hélt sko ekki að ég ætti eftir að lifa þann dag að önnur eins hljómsveit einsog Ham myndi spila í Egilsbúð. Í gærkveldi fór ég semsagt í messu og fann fyrir návist djöfulsins! Ég þurfti að vísu ekki að drekka en gerði það samt, bara af gömlum vana. Eina afsökunin sem eftir er fyrir siðfágaðri drykkju minni er slæma tónlistin sem er alltaf verið að spila á djamminu í Neskaupstað. Loksins þagnaði hún í smástund. Ég hefði sko getað verið lengur í Reykjavík en mig langaði svo að fara amk einu sinni á hið ógurlega Eistnaflug. Það er sennilega magnaðasti menningarviðburður bæjarins og mjög skemmtilegt fyrir bæjarbúa. Allir eru svo hrifnir af þeim sem mæta til að gleðja sig svona með djöflatáknin á lofti og allskyns tískuskraut sem innfæddir sjá kannski ekki daglega. Ég er mest fyrir það síðarnefnda, að vísu á öðrum en mér, en ég held að það finnist ekki fegurri samkunda fólks í víðri veröld heldur en á Eistnaflugi. Að vísu var ég dregin þarna um allt einsog í ósýnilegum taumi og sýnd sem freak „einn innfæddur“ var ég kölluð, í merkingunni innfæddur Norðfirðingur. Ein vinkona mín sem ég hef ekki hitt mjög lengi en sem er vel innmúruð í þessari satanísku rokkveröld var búin að vonast eftir að sjá mig þarna á sveimi alveg síðan Eistnaflug hófst fyrir nokkrum árum. Þegar það loksins gerðist í gær var heldur ekki lítið óvænt eða gleðilegt fyrir þorpsbúa einsog mig að fá að mingla innanum elítu þessa alls. Svona tónlist höfðar alls ekki til mín yfirleitt og ég vildi bara sjá Ham, þeir voru líka það eina sem ég sá (talandi um fullkomna tímasetningu) fyrir utan allt skemmtilega fólkið sem ég talaði við þarna um kvöldið. Siðfágunin og glaumurinn ætlaði engan endi að taka, ég sjokkeraðist ekki einu sinni yfir Caligula dæminu sem var í lokin, það er víst eitt allra svæsnasta diskótek sem um getur sem fer þá í gang. Ilur Lúsífers var alltumkring þannig að á þeim tímapunkti fór ég út og gekk svo heim, ein og yfirgefin, þartil bjargvættir birtust og skutluðu mér á leiðarenda.

Tjaldsvæðið var yfirfullt, það hafa aldrei verið svona margir þar, og allt var víst til svo mikillar fyrirmyndar og ég veit ekki hvað og hvað. Til að standa undir nafni verða þessir unglingar og ungmenni að taka sig á og byrja að ógna okkur eða rústa bænum, er ekki ætlast til þess ef þau fara ein út, tjalda og hafa áfengi um hönd? Þessi voru bara hamingjusöm, glöð og ánægð…

Nei svona í alvöru, hvað kemur til að Eistnaflug er nánast siðfáguð hátíð á meðan aðrar samkomur leysast upp í lúðalegt rugl?

Varanleg vefslóð 9 athugasemdir

Hvar er mannúðin?

júlí 3, 2008 at 12:19 e.h. (persónulegt)

Ég get ekki alveg á mér heilli tekið útaf meðferðinni á flóttamanninum Paul Ramses, það semsagt skiptast á nokkurskonar sálræn skin og skúrir, mig hlakkar svo til að fara í fríið, en tilhlökkunin súrnar alltaf þegar ég hugsa um hvað ég bý á viðurstyggilega ógeðslegu landi þarsem stjórnvöldin stjórna samkvæmt hreinni illsku. Mér finnst að við megum passa okkur á því að gleyma þessu ekki bara eftir 2 daga, við þurfum að gera allt til þess að fá manninn aftur hingað svo hann geti verið hér með konu sinni og nýfæddu barni. Ég vil persónulega að hann búi hér sem lengst því okkur vantar fleiri einstaklinga sem geta gert eitthvað gagn.

Margir margir eru búnir að blogga um þetta á moggablogginu í morgun, ég ætla að vísa á þau blogg, Jenný Anna var náttúrulega fyrst að taka til hendinni í gær, vitandi að það væri lítill tími til stefnu og lítið hægt að gera… já, við þurfum bara að finna út hvað þarf að gerast til þess að Paul Ramses geti komið hingað aftur! Lesið bloggin um þetta mál, sköpum hysteríu, það er það eina sem virkar.

Jenný Anna

Guðríður Haralds

Ingunn Guðnadóttir

Birgitta Jóns

Óskar Helgi Helgason

Sigurður Þór Guðjónsson

Það er fáránlegt að hugsa til þess ef það finnast svo margir sem 10 einstaklingar á þessu guðsvolaða skeri sem eru ekki grátandi og miður sín yfir þessu! Ég hélt í alvörunni að við mætum fólk meira en t.d bjarndýr, en svo virðist ekki vera. Fjölmiðlar eru líka involveraðir í að þagga þetta mál niður, það kemur ekki frétt eftir frétt eftir frétt um þetta einsog með bjarndýrin og hundana. Ó nei. Djöfulsins viðbjóður, það er ekkert annað hægt að segja 😦

Varanleg vefslóð 4 athugasemdir

Ég um mig og mína :)

júlí 2, 2008 at 10:11 e.h. (Miðaldaspeki)

Eins og hálf heimsbyggðin hefur væntanlega tekið eftir þá hef ég ekki verið uppá mitt besta blogglega séð undanfarnar vikur. Það er svosem engin sérstök ástæða fyrir því, ég held bara að það sé kominn í mig einhver skrif/pikk-leiði, sem er algjörlega nýtt ástand og eitthvað sem ég er ennþá að venjast.

Stóru fréttirnar eru þær að ég er komin í sumarfrí – bæði í bloggheimum og í raunheimum. Ég byrjaði í bloggsumarfríinu fyrst og það er líklega ástæðan fyrir því hvað allt sem ég er að reyna að koma frá mér þessa dagana hljómar ógáfulega – náttúran ætlast til þess að maður taki sér frí frá því að vera með heiminn á herðum sér, síkvartandi og kveinandi, og hún sýnir manni frammá þetta með því að gera mann voðalega döh við og við.

Alvöru sumarfríið mitt hófst síðan í fyrradag. Umm ég var búin að bíða svo lengi. Ég ætla að skella mér til Reykjavíkur í algjöra listisemdaferð á morgun. Hehe, einmitt þegar skuldir og peningaáhyggjur eru að sliga flesta samlanda mína þá á ég meiri fúlgur í bankanum en nokkru sinni fyrr, og litlar skuldir, og ég hyggst slá um mig og lifa einsog kóngur meðan ég verð fyrir sunnan. Ha-ha-ha! Sem betur fer er ég í strangri megrun og mun líklega ekki eyða öllu í dominós en við sjáum samt bara til með það… það er svo erfitt fyrir mig að standast kræsingar!

Mig hlakkar alveg óstjórnlega til að hitta fólkið fyrir sunnan og eftir margra mánaða félagslega einangrun á hjara veraldar þá verður allt gert vitlaust í borginni. Ó já 😀

Kassandra og Karítas eru hér að snúast í kringum mig. Síðan þær fóru í aðgerðina hefur lífið hér á þessu heimili tekið algjörum stakkaskiptum. Það þyrfti heila skáldsögu til að lýsa því en í stuttu máli sagt þá elta þessar litlu elskur mig útum allt, liggja við hliðina á mér þegar ég er í tölvunni, hlaupa á eftir mér þegar ég fer upp að ná mér í gos, þær eru bara orðnar ótrúlegar. Og mér finnst voða gaman að hafa þær alltaf svona í rassinum.

Við biðjum annars bara að heilsa í bili…

Varanleg vefslóð Færðu inn athugasemd

Smán og viðurstyggð

júlí 2, 2008 at 9:12 e.h. (Diabolique, power of the overlords)

Ég ætla að segja mig úr lögum við Ísland ef Paul Ramses verður sendur úr landi!!!

Það er hryllilegur smánarblettur á okkar samtíma að hann sitji nú í fangaklefa einsog hver annar ótíndur glæpamaður. Ég er svo reið að ég gæti hreinlega snappað á hverri stundu….

Þið Reykvíkingar sem vettlingi getið valdið, safnist saman fyrir utan löggustöðina í nótt, mætið með heykvíslar og kyndla þessvegna, bara hvað sem er, komið í veg fyrir að við fremjum ófyrirgefanlegan glæp 😦

—————————————-

bætt við 3.júlí: Flugvélin með Paul innanborðs er farin úr landi. Ég mun aldrei fyrirgefa þetta, aldrei – og allir sem bera einhverja smá ábyrgð á þessum hryllingi eiga ekkert minna skilið en eilífðarvist í Gitmo eða hroðalegustu pyntingarbúðum kínverja! Að þessu hafi verið leyft að gerast er hroðalegur blettur á þjóðarsálinni 😦

Heiðursmennin sem hlupu útá flugbrautina í morgun eru hetjur. Ég trúi því varla að það hafi náðst 30 þúsund manns á tónleika fyrir náttúruna en bara 2 mættu til að mótmæla því að Ísland standi fyrir mesta viðbjóði sögu sinnar??? Sorg 😦

Varanleg vefslóð Færðu inn athugasemd

Ógleymanleg aðvörun

júlí 2, 2008 at 1:19 e.h. (Uncategorized)

„In Germany they came first for the Communists, and I didn’t speak up because I wasn’t a Communist. Then they came for the Jews, and I didn’t speak up because I wasn’t a Jew. Then they came for the trade unionists, and I didn’t speak up because I wasn’t a trade unionist. Then they came for the Catholics, and I didn’t speak up because I was a Protestant. Then they came for me, and by that time no one was left to speak up.“

Séra Niemoeller

Varanleg vefslóð 2 athugasemdir

Next page »